Hvers vegna lærði ég ekki forritun?

Fim, 14. Jan 2016

Þegar ég var að vaxa úr grasi hafði ég oft frekar lítinn áhuga á því sem var talið vera áhugamál stelpna. Í frímínútum spilaði ég oftast fótbolta eða körfubolta, þá oft eina stelpan. Ég var samt aldrei neitt sérstaklega góð í þessum íþróttum, bæði var ég langminnst, gleraugnaglámur og óhittin í þokkabót. Ég stóð mig reyndar alltaf vel í vörn en á þessum aldri telst það ekki vera mikilvægur hæfileiki. Þeir sem eru góðir í boltaíþróttum eru þeir sem skora. Ég sé það reyndar eftir á að líklega var ég svona óhittin af því mér var ekki kennd rétt boltatækni fyrr en í 8-9 bekk (eitthvað sem strákar læra hver af öðrum), og ég æfði mig aldrei því eini aðgangurinn að körfu og marki var fyrir framan alla aðra og mér fannst svo vandræðalegt að hitta aldrei. Þannig að ég sætti mig við hlutverk mitt í vörninni og gaf boltann á strákana þegar ég var í sókn. 

Þegar ég var tólf ára byrjaði ég að læra á gítar en hætti eftir eitt ár. Ástæðan var að ég sá engan tilgang með gítarnáminu. Ekki datt mér í hug að ég gæti einhvern daginn verið í hljómsveit, þó ég væri mikill tónlistarunnandi. Það var bara ekki hluti af minni sjálfsmynd að vera einhvern daginn í hljómsveit. (Vandræðalegt en satt, þá snerust dagdraumarnir um að eiga kærasta sem væri í hljómsveit). Aftur var ég tilbúin að taka mér stöðu á hliðarlínunni en leyfa strákunum að eiga sviðið.  

Í áttunda bekk fór ég að æfa körfubolta. Ég bjó á þessum tíma í sveit og hafði ekki haft tækifæri til að æfa íþróttir fram að þessu. Þarna var ég loksins komin í stelpuhóp sem var að gera eitthvað skemmtilegt og með eldri stelpur sem fyrirmyndir. Enda fór ég loksins að leggja mig almennilega fram í einhverju. Þá hætti ég líka að heyra það sem hafði verið sagt við mig nokkrum árum áður; að stelpur gætu ekkert í körfu, því okkur hafði tekist að afsanna það. Og ég fann fyrir því hversu mikill léttir það var að vera ekki eina stelpan. Að hitta ekki á körfuna þýddi ekki lengur að ég væri að sanna það fyrir alheiminum að stelpur gætu ekkert í íþróttum, eins og ég hafði áður upplifað þetta, heldur þýddi það bara að ég þyrfti að ná frákastinu og reyna aftur. 

Á kynþroskaskeiðinu upplifði ég strákana sem freka og uppivöðslusama, eilíflega að reyna að ná til sín athygli. Ekki allir kannski, en nógu margir. Á sama tíma upplifði ég marga af þeim hlutum sem stelpurnar höfðu áhuga á (eða áttu að hafa áhuga á) sem leiðinlega. Stelpurnar náðu til sín athygli með klæðaburði eða útliti. Strákarnir með fíflalátum eða með því að láta ljós sitt skína. Það var haldið eitthvað námskeið í förðun einu sinni eftir skóla. Ég hafði engan áhuga á því að læra förðun en ég mætti samt á það því allar stelpurnar mættu og mig langaði mig ekki til að vera ein með strákunum.

Og svona gekk þetta í gegn um unglingsárin og jafnvel í menntaskóla. Hvort sem það var að spila á trommur eða tölvuleiki, spila pool eða glamra á gítar, einhvern veginn voru það alltaf strákarnir sem áttu sviðið og oft þorði ég ekki að taka þátt í því til að vera ekki lélegust af öllum og sanna með því að stelpur gætu ekki neitt í þessu eða hinu.

Undir lok menntaskólans gafst ég upp á því að vera svona óvirk. Ég og vinkona mín ákváðum að stofna hljómsveit, fórum í næstu hljóðfærabúð og ég keypti mér trommusett. Ekki hafði ég hugmynd um það hvernig maður spilar á trommur en ég prófaði bara eitthvað. Með töluverðum skammti af húmor fyrir sjálfum okkur og reiði yfir því að hafa samþykkt þetta passíva hlutverk samfélagsins í svona langan tíma, fórum við að semja tónlist og halda tónleika. Og þetta var ógeðslega skemmtilegt. Og brátt fór ég á trommunámskeið, eina stelpan enn einu sinni og fannst ég léleg samkvæmt því en einhvern veginn náði ég að bæla niður þá tilfinningu, kannski vegna þess að ég fékk bara jákvæð viðbrögð og hvatningu frá kennurunum (sem voru svo glaðir að fá stelpu á námskeiðið) en líka vegna þess að þetta var bara svo gaman. Og ég þurfti ekki að sýna listir mínar ein fyrir framan strákana því við spiluðum saman í hóp.  

Eftir á séð umbreytti þetta trommunámskeið lífi mínu til hins betra. Bæði fór ég að kunna betur á trommur, sem er skemmtilegast í heimi og ég fór líka að skilja betur tónlist og takt. Það sem skipti hins vegar öllu máli var að það umbreytti sjálfsmynd minni úr feiminni stelpu yfir í einstakling sem fattaði að hún gat allt sem hún vildi. Núna, tólf árum síðar, hef ég tekið þátt í verkefni sem heitir Stelpur rokka! þar sem ég hef kennt stelpum á trommur undanfarin fjögur sumur. Stelpur rokka! snýst um að búa til 2 vikna námskeið fyrir stelpur þar sem þeim eru gefin hljóðfæri og svo semja þær lag sjálfar og flytja á tónleikum. Á námskeiðinu fá þær útrás fyrir listræna sköpun og byggja upp sjálfstraust. Orkan á þessum námskeiðum verður alltaf ótrúlega jákvæð og stelpurnar einfaldlega blómstra. Þegar stelpurnar eru búnar að öðlast aukið sjálfstraust eiga þær auðveldara með að feta sínar eigin slóðir, vitandi það að þær geta allt sem þær vilja. Þetta hjálpar líka þeim stelpum sem mæta ekki á námskeiðið, því smám saman myndast öflugur hópur sem verða fyrirmyndir fyrir yngri stelpur. 

Nú kem ég loksins að upphaflegu spurningunni, um hvers vegna ég lærði ekki forritun. Eins og þið hafið nú séð, á þessu litla ævisöguágripi hér að ofan, þá hef ég oft í gegn um tíðina verið alveg ótrúlega vitlaus. Sérstaklega þegar kemur að eigin getu og hæfileikum. Þrátt fyrir að hafa alltaf gengið vel í stærðfræði, og verið með meðaleinkunn í stærðfræði upp á 9.5 í menntaskóla, þá taldi ég mér samt trú um að ég væri ekkert sérstaklega góð í stærðfræði því ég var „bara“ á félagsfræðibraut og þar af leiðandi í auðveldum stærðfræðikúrsum. Ég held ekki að þetta sé eitthvað einsdæmi en sjálfstraustsskortur stelpna í stæðfræði er án efa efni í aðra bloggfærslu. 

Nú jæja, áfram heldur lífið og kominn tími á að velja sér fag í háskóla. Ég var aðallega með í huga að fara í félagsvísindi. Valið stóð á milli mannfræði, félagsfræði og stjórnmálafræði. Ég valdi mannfræði vegna þess að ég var nýkomin aftur frá Suður-Afríku og hafði fengið í útskriftargjöf mjög áhugaverða bók um mismunandi ættbálka. Stundum þarf ekki mikið til í ákvörðunum lífsins. Ég hafði semsagt ekki hugmynd um hvað þetta nám var, annað en að það fjallaði um samfélög manna. Að aðferðafræðin væri eigindleg en ekki megindleg vissi ég ekki, enda hafði ég ekki hugmynd um muninn á þessum hugtökum. Með öðrum orðum: Ég valdi mér námsleið sem hefur eins litla samsvörun við forritun og hægt er. Datt mér tölvunarfræði einhvern tímann í hug? Ég hugsaði stundum út í það, strákur sem ég vann með um sumarið var að fara að hefja nám í tölvunarfræði um haustið, og ég ímyndaði mér sjálfa mig í tölvunarfræði sem einu stelpuna, umkringda strákum, og langaði ekki til þess að eyða þremur árum í það. Annað sem ég held að hafi haft áhrif á mig var að á þessum aldri var ég svolítið að forðast nördið í sjálfri mér, af því að ég hélt að það væri ekki sexí. Semsagt vissi ég ekki þá að strákar gætu alveg haft áhuga á klárum stelpum. Já, ég veit, ég var í rauninni mjög vitlaus. Ég skal því fúslega viðurkenna það að þessi ákvörðun var eingöngu byggð á fordómum. Fordómum gagnvart forritun sem nördalegri á einhvern hátt, og fordómum gagnvart því að það væri ekki bara flott og skemmtilegt að vera nörd. 

Til að gera langa sögu aðeins styttri, þá er ég löngu búin að sætta mig við að vera nörd. Enda er ég búin að komast að því að mannfræðingar eru (ef eitthvað er) meiri nörd en forritarar. Hins vegar hef ég í gegn um tíðina kynnst forritun í gegn um vinnu og með því að prófa mig áfram í Python í eigin frítíma. Ég er líka búin að komast að því hversu marga og fjölbreytta hluti maður getur gert með forritun. Ég hef líka stundum (ekki það að ég sjái eftir mannfræðináminu, sem var að mörgu leyti alveg frábært) nagað mig í handarbökin fyrir að hafa ekki lært forritun, því ef maður er góður forritari getur maður nánast alltaf reddað sér vinnu. Tja, það væri svosem ekki verra að kunna bæði, til að geta reddað sér þegar lítið framboð er eftir mannfræðingum. 

Þetta er ástæðan fyrir því að Kóder.is vill prófa bjóða upp á kynjaskipt námskeið, bæði til að búa til félagslegan stuðning meðal stelpna, að þær sem hafi áhuga hætti ekki við af ótta við að vera eina stelpan í hópnum og líka því að stundum verða stelpur óhræddari við að láta ljós sitt skína þegar strákarnir eru ekki með til að grípa athyglina. Við vonum líka að þetta muni valdefla stelpur til að fagna nördinu í sjálfum sér í stað þess að bæla það niður því þær haldi að það þyki ekki eftirsóknaverður hæfileiki. Hvort þessi tilraun eigi eftir að bera árangur á eftir að koma í ljós en vonandi munu svör úr þátttökukönnunum varpa einhverju ljósi á það.

- Helga

Pantaðu námskeið núna fyrir þinn skóla, félagsmiðstöð eða ef þú hefur sambærilegt rými til yfirráða.

Panta námskeið

Styrkja Kóder.is

Hægt er að styrkja Kóder.is með margvíslegum hætti. Ein vinnustöð samanstendur af Raspberry Pi og jaðartækjum (skjár, lyklaborð, mús, SD kort og kaplar) og kostar u.þ.b. €150 evrur (um 21 þúsund kr). Til að halda kostnaði niðri setjum við vinnustöðina saman sjálf.

Einnig er hægt að styrkja einstaka þáttakendur með fríu plássi með styrk upp á €75 evrur (um 10.000 þúsund krónur).

Hafðu samband við okkur ef þú eða fyrirtæki þitt getur hjálpað.

Eftirfarandi fyrirtæki og stofnanir styðja við bakið á okkur ásamt fjölmörgum einstaklingum sem hafa lagt okkur lið.

Hafa samband

Sendu okkur póst ef þú vilt fá frekari upplýsingar um samtökin, námskeiðin, til að panta námskeið í þínu hverfi eða til að styrkja Kóder.is

Senda fyrirspurn

Kóder.is

Áhugi barna á tölvutækni helst ekki í hendur við framboð á námi og verð á námskeiðum í forritun fyrir krakka eru ekki viðráðanleg fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins. Við viljum að ungir krakkar geti sótt þetta nám án þess að þurfa að ferðast langar leiðir og greiða fyrir það háar upphæðir. Til að læra forritun er ekki þörf á dýrum vélbúnaði og með því að koma með námskeiðið í þeirra hverfi er ekki þörf fyrir samtökin að reka húsnæði.

Þú getur notað formið hér til að senda okkar póst eða sent okkur póst beint á koder [at] koder.is