Konur og forritun

Þri, 19. Jan 2016

Við Elísabet mættum á Rás 2 í morgun til þess að tala um konur og forritun. Eins og alltaf þegar maður er í viðtali í beinni gleymir maður helmingnum af því sem maður ætlar að segja og þessvegna ætla ég að bæta því við hér. Það er rétt að halda því til haga Kóder eru ekki fyrstu samtökin sem bjóða upp á námskeið fyrir stelpur í forritun því Skema gerir það einnig. Aðal munurinn er að Kóder fer á milli staða og mun alltaf bjóða upp á bæði stráka- og stelpunámskeið á hverjum stað fyrir sig og fyrir báða aldurshópa. Þannig vonumst við til að ná til þeirra stelpna og stráka sem hafa ekki enn uppgötvað forritun og hafa ekki hugsað út í að skrá sig á námskeið hjá Skema. 

Erlendis eru einnig til mörg samtök sem stefna að því að kynna forritun fyrir strákum og stelpum. Mörg þeirra eru rekin fyrst og fremst á sjálfboðaliðum, líkt og Code Club í Bretlandi sem er bæði fyrir stelpur og stráka. Að auki eru til sérstök samtök sem eru sérstaklega fyrir stelpur eins og Rails Girls, Girls who Code og Black Girls Code

En hvers vegna erum við að reyna að ná sérstaklega til stelpna?

Konur eru í minnihluta þeirra sem læra og vinna við forritun (þó svo hlutfall kvenna í greininni sé alltaf að aukast og eru nýnemar í tölvunarfræði hér á landi um 27%). Ástæðan er samt alls ekki sú að þær geti ekki lært hana eða hafi ekki áhuga. Það er erfitt að fullyrða hver ástæðan er í raun en í hinni frægu grein The trouble with bright girls er fjallað um það að það auki alls ekki sjálfstraust kvenna að vera klárar og þvert á móti lækki sjálfstraust þeirra í jöfnu hlutfalli við hækkun á greindarvísitölu. Í greininni er sett fram sú kenning að þetta stafi af því að stelpum sé sjaldan hrósað fyrir það sem þær gera, heldur fyrir það sem þær eru. Þannig er þeim hrósað fyrir að vera klárar og duglegar. Strákum sé hins vegar fremur hrósað fyrir það sem þeir gera, fyrir að klára krefjandi verkefni, fyrir að reyna en gefast ekki upp. Þannig fá þeir meiri hvatningu og öðlast meira sjálfstraust við það að klára verkefnið. Fyrir stelpurnar sé þetta á hinn veginn, þar sem þær eru orðnar vanar því að geta leyst öll verkefni strax, án aðstoðar og hvatningar, þá gera þær ráð fyrir því að þær geti ekki leyst þau verkefni sem eru þeim erfið í byrjun. 

Hvað áhugann varðar þá skiptir félagslegt net vafalaust líka miklu máli. Á ákveðnum aldri er það mjög algengt að stelpur og strákar tilheyri sitt hvorum vinahópnum, og áhugamál og þekking berast þá aðallega milli jafninga innan sama kyns en minna frá einu kyni til annars. Áhugamál sem talin eru tilheyra öðrum hvorum hópnum haldast því bara innan hans. Sem dæmi má nefna að ef fleiri strákar eru að forrita, þá kynna þeir forritun hver fyrir öðrum en ef stelpur eru ekki að forrita, þá kynnast þær þessum heimi aldrei.

Tölvuleikjaspilarinn Helen Lewis gerir það að umtalsefni í grein um konur innan leikjaheimsins, að það sé sjaldnast gert ráð fyrir því að konur spili tölvuleiki. Staðalmyndin er ennþá sú að tölvuleikjaspilarar séu bólugrafnir unglingsstrákar, einir inni í loftlausu herbergi. Það er þó alls ekki raunin lengur þar sem meðalaldur tölvuleikjaspilara er um 30 ár og helmingur þeirra eru konur. Þrátt fyrir það er enn skortur á kvenkyns tölvuleikjahönnuðum og er hlutfall þeirra enn lægra en meðal forritara almennt (um 4-6% samkvæmt grein Lewis). Hún segir að það skipti máli að hafa kvenkyns tölvuleikjahönnuði, meðal annars til að fjölga þeim hlutverkum sem konur spila í tölvuleikjum og til að minnka karlrembu sem sé algeng innan leikjaheimsins. 

Eins og á mörgum öðrum sviðum er staðan þó alls ekki þannig að konur séu ekki til staðar, einhvern veginn virðast þær bara ekki verða eins áberandi. Til dæmis eru konur sem eru hátt settar innan tölvufyrirtækjanna ekki eins vel þekktar eins og karlmenn í svipuðum stöðum. Að sama skapi er saga kvenna innan tölvuheimsins lítið þekkt. Það eru til dæmis ekki allir sem vita að fyrsti algórithminn var búinn til af konu, Ada Lovelace, sem var fædd 1815 og telst hún því fyrsti forritarinn! Eins var fjöldi kvenna sem vann að því að brjóta dulkóðun Þjóðverja í seinni heimstyrjöldinni, sem var mikilvægt skref í þróun tölvunnar. Að auki komu margar konur við sögu í þróun internetsins, og má þar nefna Judith Estrin, Jake Feinler og Joyce Reynolds og ein af fyrstu hökkurunum var Jude Milhon.

Og hvers vegna skiptir máli að konur séu í forritun líka? 

Það eru sífellt fleiri svið samfélagsins sem þurfa á forriturum og hönnuðum að halda og þekking á forritun opnar dyr yfir á mörg svið. En það eru ekki bara konur sem græða á því að kunna að forrita því forritun er skapandi grein í sífelldri þróun og sem slík þarf hún líka á margbreytileikanum að halda. Og svo er hún líka skemmtileg, eins og Linda Liukas, bendir á, þá er svo gaman að skapa eitthvað úr engu, án þess að þurfa neitt annað en orð.

Það er skortur á forriturum á Íslandi og víðar í heiminum og því eru margir starfsmöguleikar í boði. Og í framtíðinni er líklegt að vélmenni fari að sinna æ fleiri störfum, að undanskildum umönnunarstörfum og störfum sem skapa vélmennin, það er starf forritara. 

Á undanförnum árum hafa margir haft áhyggjur af hinu svokallaða tæknibili (digital divide) milli ríkra og fátækra landa, menntaðra og ómenntaðra og milli ólíkra samfélagshópa (í Bandaríkjunum er til dæmis munur á aðgengi svartra og hvítra að tækni). Kóder vill því ekki bara ná til fleiri stelpna, heldur líka til fleiri krakka sem koma ekki úr tekjuháum fjölskyldum. 

- Helga

Pantaðu námskeið núna fyrir þinn skóla, félagsmiðstöð eða ef þú hefur sambærilegt rými til yfirráða.

Panta námskeið

Styrkja Kóder.is

Hægt er að styrkja Kóder.is með margvíslegum hætti. Ein vinnustöð samanstendur af Raspberry Pi og jaðartækjum (skjár, lyklaborð, mús, SD kort og kaplar) og kostar u.þ.b. €150 evrur (um 21 þúsund kr). Til að halda kostnaði niðri setjum við vinnustöðina saman sjálf.

Einnig er hægt að styrkja einstaka þáttakendur með fríu plássi með styrk upp á €75 evrur (um 10.000 þúsund krónur).

Hafðu samband við okkur ef þú eða fyrirtæki þitt getur hjálpað.

Eftirfarandi fyrirtæki og stofnanir styðja við bakið á okkur ásamt fjölmörgum einstaklingum sem hafa lagt okkur lið.

Hafa samband

Sendu okkur póst ef þú vilt fá frekari upplýsingar um samtökin, námskeiðin, til að panta námskeið í þínu hverfi eða til að styrkja Kóder.is

Senda fyrirspurn

Kóder.is

Áhugi barna á tölvutækni helst ekki í hendur við framboð á námi og verð á námskeiðum í forritun fyrir krakka eru ekki viðráðanleg fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins. Við viljum að ungir krakkar geti sótt þetta nám án þess að þurfa að ferðast langar leiðir og greiða fyrir það háar upphæðir. Til að læra forritun er ekki þörf á dýrum vélbúnaði og með því að koma með námskeiðið í þeirra hverfi er ekki þörf fyrir samtökin að reka húsnæði.

Þú getur notað formið hér til að senda okkar póst eða sent okkur póst beint á koder [at] koder.is